top of page
DSC03715-Edit copy.jpg
Helga María Finnbjörnsdóttir

Viðskiptafræðingur og mannauðsráðgjafi hjá Isavia

Sameinumst um gott velferðarkerfi

Við maðurinn minn fluttum til Reykjanesbæjar árið 2010 og hér höfum við alið börnin okkar upp. Tveir af þremur strákanna okkar eru fæddir hér á HSS og hér hafa þeir allir notið þjónustu dagforeldra, leikskóla og grunnskóla í Reykjanesbæ. Máltækið sem segir að það taki þorp til að ala upp barn er svo sannarlega satt í okkar lífi. Mér hefur þótt við mjög lánsöm með þá skóla sem þeir hafa sótt og ég er afskaplega þakklát fyrir það mikilvæga starf sem starfsfólk skóla sinnir á hverjum degi. 
Við höfum líka þurft að leita til velferðarþjónustunnar hjá Reykjanesbæ til að styðja enn betur við börnin okkar. Starfsfólk velferðarþjónustunnar er líka hluti af okkar þorpi. Mér hefur þótt foreldrahlutverkið óskaplega krefjandi á stundum, ég upplifi oft að ég viti ekkert hvað ég er að gera og vona svo bara það besta. Ég hef sótt námskeið til að styrkja mig í foreldrahlutverkinu, börnin mín hafa sótt námskeið á vegum bæjarins og við höfum líka fengið aðstoð sálfræðinga og annarra sérfræðinga. Alltaf erum við að gera okkar besta í þessu hlutverki með það að markmiði að hjálpa börnunum okkar að takast á við áskoranir lífsins og að þeim líði vel. 

Þrátt fyrir að alls kyns stuðningur sé til staðar hjá bænum fyrir fjölskyldur þá má alltaf gott bæta. Ég hefði t.d. á tímabili þegið að geta rætt við aðra foreldra í svipaðri stöðu um þeirra áskoranir í þeirra hlutverkum og hvernig þau væru að takast á við þær. Eins konar „buddy group“ eða stuðningshópur. Þetta er nú bara lítil hugmynd. En hér er stærri hugmynd, hvernig væri ef við myndum sameinast um að setja á fót styrktarsjóð á velferðarsviði? Sjóð svipaðan og nýsköpunar- og þróunarsjóð fyrir fræðslumálin, eða menningarsjóð í menningarmálum, sem hefði það hlutverk að styðja þá sem hefðu hugmyndir um námskeið eða stuðning sem hægt væri að setja á laggirnar fyrir fjölskyldur í sveitarfélaginu? Ég veit að hér býr mikill auður í íbúum bæjarins sem væri tilbúið að koma góðum hugmyndum í framkvæmd með stuðningi bæjarins.
 

Helga María Finnbjörnsdóttir,

2. sæti á lista Beinnar leiðar í Reykjanesbæ.

bottom of page