top of page
12136_003 copy.jpg
Halldór Rósmundur
Guðjónsson

Lögfræðingur

Hver var uppáhaldskennarinn þinn?

Ef þú ert spurður hver hafi verið uppáhaldskennarinn þinn eru miklar líkur á því að þú getir svarað því án umhugsunar. Ég get það líka og mér hefur alltaf fundist það í rauninni athyglivert og umhugsunarvert. Næsta spurning virðist hins vegar vera flóknari. Ef þú ert síðan spurður hvers vegna hann hafi verið uppáhaldskennarinn þinn þarf að hugsa sig aðeins um. Kannski vegna þess að svarið er svo margþætt. Þegar ég hugsa um það þá felst svarið hvað mig varðar ekki bara í því sem kennarinn var að kenna og tala um heldur ekki síður hvernig hann gerði það og hvernig hann var og er. Þannig minnist ég líka margra annarra góðra starfsmanna skólans sem ég gekk í vegna þess hvernig þeir voru og sinntu sínum verkefnum af áhuga og metnaði. 

Ég hef stundum velt þessum jákvæðum áhrifum skólans á mig sem einstakling og hve mikil þau í raun voru og eru. Einnig hvernig hægt er að styðja við skólakerfið þannig að þeir sem þar læra geti allir fengið þaðan gott veganesti sem hægt er að búa að og um leið notið námsins. Þetta er í raun ótrúlega vandasamt vegna þess að það er verið að undirbúa nemendur fyrir framtíð sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig verður og ekki síður vegna þess að hver nemandi hefur líka mismunandi þarfir. Síðan að gera þetta með sem bestum hætti og í góðu samstarfi.

Við búum vel að góðu starfsfólki í skólum Reykjanesbæjar og það sýndi sig vel hversu þessi hópur stendur sig vel í því krefjandi og erfiða umhverfi sem þurfti að takast á við í skólunum á meðan heimsfaraldur gerði allt skólastarf nánast ómögulegt. Það er hins vegar okkar hlutverk að styðja stöðugt betur við skólafólk og nemendur Reykjanesbæjar. Jákvæð áhrif þess koma kannski ekki fram fyrr en eftir mörg ár en það dregur ekki úr metnaði okkar að gera allt sem hægt er til þess að gera vel þannig að hver nemandi eigi jákvæðar minningar úr skólagöngu sinni.

Halldór Rósmundur Guðjónsson, Beinni leið.

bottom of page